Haninn á haugnum!

Það er með ólíkindum að hlusta á Sigmund Davíð þessa dagana. Hann fordæmir allt og alla, þykist hafa töfralausnir uppi í erminni og rótast um í fjölmiðlum og á þingi eins og naut í flagi svo skítaklessurnar þjóta undan honum í allar áttir. Hann er ekkert að bjóða fram raunverulega aðstoð, ekkert að reyna að aðstoða við tiltektina eftir óstjórnartíma Framsóknar. Nei, hann er eins og haninn á haugnum og galar upp í sólina. Hann vonar örugglega að ef hann hrópar nógu oft um það hvað allir aðrir séu heimskir þá haldi einhverjir að hann sé sá gáfaði. Og að það muni skila atkvæðum í næstu kosningum. Kannski er þetta alveg rétt  hjá honum, kannski er þetta aðferðin sem dugar á íslenska kjósendur. Það eru vísbendingar um það í skoðanakönnunum og svo talar það sínu máli að kjósendur á Íslandi kusu þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hélt völdum hér í 18 ár, þrátt fyrir að hann væri stöðugt að auka hér mismunun, misrétti og gæfi vinum sínum og stuðningsmönnum allt sem hönd á festi. En þetta er ansi sorglegt og Framsóknarforingjanum væri nær að snúa bökum saman við þá sem eru að reyna að leysa vanda sem búinn var til að óþörfu og leggja þannig þjóðinni lið.
mbl.is Ekki reynt að verja málstað Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já við skulum reka stjórnarandstöðuna af Alþingi. Gagnrýni á ríkisstjórnina er algjörlega óþörf! Að sjálfsögðu er ríkisstjórnin sem heldur að skattahækkanir hjálpi heimilunum algjörlega fullkomin og yfir hafin gagnrýni. Sérstaklega þar sem hún virðist halda sjálf að hún sé yfir hafin gagnrýni og svarar allri gagnrýni með því að benda á misgjörðir fyrri ríkisstjórna eins og þú gerir hér sjálfur. Það væri nú ekki góður heimur ef allir morðingjar myndu segja til að réttlæta gjörðir sínar: "já en það er til fólk sem hefur drepið og nauðgað.".

Það er gaman að sjá flokksbundna vinstri menn eins og þig væla yfir sanngjarnri gagnrýni annarra án þess að svara gagnrýninni. Er það ekki merki um að þú hafir enginn svör og viljir því frekar þagga niður í gagnrýninni þar sem hún er þér óþægileg. Hvernig væri hjá þér að svara gagnrýni stjórnarandstöðunnar í stað þess að gagnrýna umræðu og gagnrýni sem er nauðsynleg svo að fulltrúalýðræði gangi og ríkisstjórnin fái aðhald frá stjórnarandstöðunni. Til þess er stjórnarandstaða.

Valgerður Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 19:41

2 Smámynd: Friðrik Dagur Arnarson

Það er alltaf gaman af málefnalegum umræðum. Verra þegar trúarhitinn blindar mönnum sýn. Það skilar litlu. Það er líka vert að hafa í huga að þó ekki sé verið að lýsa hrifningu á stjórnarandstöðu þá þýðir það ekki skilyrðislausa hrifningu af stjórninni. En því miður er athugasemdin hér að ofan dæmi um hugsun sem gengur út frá þessu svarthvíta sjónarmiði í stjórnmálum. 

Það er auðvelt að gagnrýna þessa ríkisstjórn. Ýmislegt sem hún hefur gert hefur orkað tvímælis og margt er það sem hún hefði átt að gera hefur hún ekki gert. Enda er það nú svo að margir flokksbundnir vinstrimenn hafa gagnrýnt ýmislegt opinberlega, nokkuð sem ekki tíðkast í sumum öðrum flokkum. Gleymum samt ekki að viðfangsefni þessarar ríkisstjórnar eru tröllaukin og felast einkum í tiltekt eftir sóðalega stjórnarhætti síðustu ríkisstjórna. Og margt er  hún líka að gera vel og á skilið hrós fyrir það.

Stjórnarandstaða er mikilvæg sem lifandi afl og þú, Valgerður,  sérð hvergi í ummmælum mínum neinar tillögur um að ég vilji leggja stjórnarandstöðu niður. Spurning um að vera málefnaleg, sjáðu til! En stjórnarandstaða sem þykist alltaf eiga endalaus einföld svör við flóknum spurningum er ekki að vinna vinnuna sína. Stjórnarandstaða sem ríkur fram á völlinn  með gífuryrðum og upphrópunum skilar ekki miklu gagnlegu til stjórnar landsins. Og það er það sem málin eiga að snúast um inni á Alþingi. Spruningin getur sjálftagt líka fjallað um það hvað er sanngjörn gagnrýni og örugglega greinir menn á um það í stjórn og stjórnarandstöðu. En það sem er óvanalegt núna er það, að þjóðin stendur frammi fyrir ástandi sem hún hefur aldrei staðið frammi fyrir áður. Stöðu sem er aflleiðing græðgi og skammsýni sem fékk að dafna í skjóli stjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar um alltof langt áraabil. Einkavinavæðing, einkavæðing, stóriðjubrölt og dýrkun skammtímagróða fékk að ráða för. Og það sem hvorki er sanngjarnt né málenfalegt í málflutningi þessara tveggja flokka er að þeir hafa bara strikað yfir ábyrgð sína á ástandinu og koma nú fram eins og þeir hafi hreinan skjöld með öll góðu ráðin til að leysa vandann. Gleymum því bara ekki að ráðin þeirra voru einmitt það sem kom okkur í kreppuna. Komum heldur ekki fram eins og það séu til patentlausnir út um allt sem ríkisstjórnin sé of heimsk eða illgjörn til að nýta. Hanagól skilar litlu og því endurtek ég það sem ég sagði áður að Sigmundi  og liðinu hans væri nær að ganga til samstarfs til að reyna að leysa málin og sýna þannig að Framsóknarmenn skammist sín fyrir þann stóra þátt sem flokkurinn á í ömurlegri stöðu Íslendinga í dag.

Friðrik Dagur Arnarson, 5.7.2009 kl. 11:24

3 identicon

Mér finnst svar þitt og blogfærslan þín einkennast af því að þú fullyrðir hluti eins og þeir séu blákaldur sannleikur án þess að færa nein rök eða nefna nein dæmi fyrir því sem þú segir. Þú fullyrðir að þessi stjórnarandstaða sé ómálefnaleg og fullyrðir að hún þykist eiga einföld svör. Rökstuðningur er aðalatriði í málefnalegum umræður og því finnst mér skrítið að hann vanti hjá þér í jafn miklum mæli og raun er þegar þú ert einmitt að gagnrýna skort á málefnalegheitum.

Já, þú ásakar mig með ósanngjörnum og yfirlætislegum hætti um "svarthvítt" sjónarmið og reynir að gera þig hlutlausan hvað varðar hrifningu af stjórninni. Láttu ekki svona! Þú segir sjálfur: "...Framsóknarforingjanum væri nær að snúa bökum saman við þá sem eru að reyna að leysa vanda sem búinn var til að óþörfu og leggja þannig þjóðinni lið.". Þetta er augljós hrifning af stjórninni, er það ekki? Hann á bara að hætta að gagnrýna og styðja við stjórnina!

Í öðru lagi vill ríkisstjórnin ekki að Sigmundur og hans flokkur gangi til samstarfs við hana. Ummæli Jóhönnu Sigurðardóttir, forsætisráðherra þegar hún vær spurð hvort framsóknarmenn gætu gengið inn í ríkisstjórnarsamstarfið af fréttamanni voru að mig minnir hæðnishlátur. Framsóknarmenn væru að snúa baki við kjósendur sína ef þeir myndu ganga til liðs við þessa vonlausu ríkisstjórn sem mun líklega koma atvinnulífinu í efnahagslegt alkul! Tillaga þín er því fáránleg.

Ég ætla ekki að verja framsóknarmenn frekar enda kaus ég þann flokk ekki og er ekki sérstakur stuðningsmaður flokksins. En þú virðist þó gera ráð fyrir því sem er vissulega merki um hið svarthvíta sjónarmið sem þú minntist á.

Orðræða þín um fyrri ríkisstjórn er gjörsamlega röklaus prósi. Orð eins og "græðgi", "skammsýni", "einkavinavæðing", "stóriðjubrölt", "skammtímagróða" eru hugtök sem virka vel í kappræðum í kosningasjónvarpi en sæma hins vegar ekki til notkunar í pistli frá manni sem virðist leggja mikið upp úr málefnalegum flutningi. Þetta er allt órökstutt hjá þér og því er það ótrúlega hræsnislegt af þér að ásaka stjórnarandstðuna um ómálefnalegheit meðan að þú ert ekki málefnalegur sjálfur.

Flokkarnir hafa ekki strikað yfir ábyrgð sýna. Ég man ekki alveg með Framsóknarflokkinn en Sjálfstæðisflokkurinn játaði oft ábyrgð sína í kosningabaráttunni um árið. Það virðist þó ekki hafa verið góð stradegía, þar sem sá flokkur sem strikaði algjörlega yfir ábyrgð sína var Samfylkingin sem stjórnar nú ríkisstjórnarskútunni! 

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa hins vegar endurnýjað lýðræðislegt umboð sitt í sl. kosningum og hafa því fullan rétt á því að reyna að koma með góð ráð til að leysa vandann.... "Gleymum því bara ekki að ráðin þeirra voru einmitt það sem kom okkur í kreppuna", er einmitt enn annað dæmi um algjörlega órökstudda fullyrðingu og því ekki svaraverð.

Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að krefja þig um rök og málefnalegheit þegar þú gagnrýnir skort á málefnalegheitum. Þú ert í þessari blogfærslu ekkert betri en það sem þú gagnrýnir. Eins og þú segir sjálfur þá skila gífuryrði og upphrópanir ekki miklu.

Valgerður Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Friðrik Dagur Arnarson

Höfundur

Friðrik Dagur Arnarson
Friðrik Dagur Arnarson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband