Íslendingar þurfa að draga lærdóm af Enronmálinu

Var að horfa á þáttinn um Enron, að vísu því miður bara hluta hans, en það er ekki hægt að neita því að hrollur fór um mig þegar ég sá vinnubrögin og skortinn á siðferðisvitund sem þarna réði för. Og ég get ekki neitað því að oft varð mér hugsað til Íslands og þess sem hér hefur átt sér stað á undanförnum árum. Lærdómurinn sem hægt er að draga af Enronmálinu er skýr. Frjáls markaður sem fær að leika lausum hala býr ekki yfir siðrænum viðmiðum, af því þar ræður för ábyrgðarlaust "frelsi" til að hagnast með öllum aðferðum. Hámarksgróðinn er markmiðið og leiðirnar eru þær sem þú getur látið þér detta í hug og þú kemst upp með. Því miður er það þó svo, að það græðir sjaldan neinn nema annar tapi. Og nú situr venjulegt fólk uppi með tapið meðan aðalleikararnir brosa út í bæði af því þeir eiga helling af peningum í alls konar skálkaskjólum og skattafelustöðum úti um allan heim. Stjórnmálamenn sem stýrðu þjóðinni sváfu á verðinum, ekki bara óvart heldur af fúsum og frjálsum vilja, svo vinir þeirra gætu farið frjálsri hendi um auðlindir og verðmæti í nafni frelsisins. Og molarnir rúlluðu af háborðinu niður til verðugra og flokkar sem vildu tryggja áframhald ástandsins hafa vafalítið notið góðs af veislunni. Frjálshyggjan gengur út á þetta, hvað svo sem Sjálfstæðisflokkurinn segir um það mál. Sá flokkur er merkisberi óréttlætis, frekju og sérgæsku. Með stjórnarháttum sem byggja á því að láta vini og útvalda komast upp með nánast hvað sem er, hefur þessi flokkur búið til hvert Enronið á fætur öðru hér á landi og þjóðin situr í súpunni. Þetta hefur hann gert bæði beint og líka með því að ýta eftirliti og regluverki til hliðar eða jafnvel út af borðinu svo græðgisöflin fái svigrúm til að njóta sín.

Er það svona lífssýn sem við viljum að ráði á Íslandi? Viljum við búa í samfélagi þar sem svona er ekki bara leyft heldur er beinlínis ætlast til þess að menn geti skarað eld að eigin köku með því að krækja í eigur almennings og samfélags í nafni frjálshyggju og hins frjálsa markaðar? Ég fæ mig ekki til að trúa því að það sé vilji landsmanna. Þess vegna held ég að þeir sem ætla að styðja þennan alræmda flokk séu ekki alveg búnir að hugsa málið til enda. Fólk má aldrei gleyma því að þetta er fólkið sem búið er að rústa efnahag landsins með blöndu af gjörðum sínum og aðgerðaleysi og grafa þannig undan samfélagslegum gildum og velferð. Það á að axla ábyrgð þó það sjálft telji sig ekki þurfa að standa neinn reikningsskap gjörða sinna. Þeir kjósendur sem setja málin í vítt samhengi hljóta að þurfa að staldra við áður en það krossar við þennan flokk. Ég vil að minnsta kosti ekki trúa því að venjulegt fólk geti vitandi vits klappað þessu liði á axlirnar og kvittað þar með upp á gjörðir þeirra. En það gera kjósendur með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum. Sá flokkur þarf á öllu meira að halda en að menn sendi honum þau skilaboð að það sé bara allt í lagi að setja land og þjóð á hausinn. Og þjóðin á allt annað skilið en að þessi flokkur fái sæti við ríkisstjórnarborðið um langa og ókomna framtíð.


Gott að eiga Davíð að á erfiðum tímum

Davíð átti stjörnuleik í Kastljósinu þegar hann sannaði fyrir sjálfum sér og þjóðinni að hann einn væri traustsins verður á Íslandi í dag. Hann var aldrei með í útrásarsvínaríinu og er sá eini sem er að gera eitthvað núna. Og hann fann ekki annað en hann nyti trausts. Í lokinn nánast klökknaði hann yfir því hvað hann var góður. Ég er glaður að hann gat leiðrétt alls konar misskilning sem ég var með í kollinum, eins og það að stjórnmálaforinginn Davíð bæri ábyrgð á því að frjálshyggjunni var skellt á skeið, að markvisst var unnið að því að draga úr öllu eftirliti og hömlum á starfsemi óðafjárfestanna. Og baktjaldamakk og einkavinavæðing, allt þetta ólýðræðislega brölt sem pottaglamrarar eru búnir að tala um, ekkert af þessu er þá sennilega nokkuð á hans ábyrgð. Hann er búinn að vera á fullu að mylja undir þá sem verst hafa það. Og þetta myndband þar sem hann hrópar húrra fyrir útrásarköppunum er örugglega bara bull líka, fyrst hann var aldrei hrifinn af þeim. Hvar værum við stödd núna ef hann væri ekki á vaktinni að bjarga þjóðinni? Það er gott að Höskuldur litli stendur vaktina með honum og passar upp á að vond stjórnvöld reki hann ekki á dyr.
mbl.is SÍ naut trausts erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Ég ætlaði að vera á Ísafirði í dag með stjórn Rammaáætlunarinnar, en ég er nýkominn inn í hana sem fulltrúi náttúruverndarfélaga. Því miður var ófært vestur, þannig að ferðin bíður betri tíma. Í þessari vinnu er verið að fara yfir áform um virkjanir í ám og jarðhitasvæðum með það fyrir augum að meta t.d. náttúrufar, hagkvæmni og umhverfisáhrif af virkjunum og bera síðan saman við aðra möguleika á nýtingu. Svo á að reyna að forgangsraða virkjunarkostunum. Nú er í gangi annar áfangi þessarar vinnu og mjög fróðlegt að  fá að taka þátt í svona stefnumótun. Auðvitað eru alltaf uppi ýmis álitamál, svo sem um það hvað á að virkja og hverju að halda utan við það umrót sem slíku fylgir. Mikil vinna fer í að átta sig á ýmsum grundvallarþáttum og aðferðafræði, svo sem hvernig á að meta land, verðmæti þess og gildi fyrir þjóðina. Auðvitað er ákveðin hætta á slagsíðu í þessari vinnu, þar sem annars vegar er orkugeirinn með allt sitt lið og peninga en hins vegar þeir sem sjá fleiri og vænlegri kosti til nýtingar auðlinda okkar en bara það að virkja endalaust. Því var það mikilvæg ákvörðun að náttúruverndarsamtök skyldu eiga þarna eitt af sætunum við borðið.  Auðvitað er það löngu þekkt staðreynd að náttúruverndarfólk býr ekki við sömu aðstæður og orkufyrirtækin og getur ekki virkjað hóp fólks á launum til að finna rök fyrir verndun eða friðun landsvæða. Aðferð umhverfissinna er því barátta í grasrót og sem betur fer hefur stundum náðst árangur þó Golíat hafi, með stuðningi skammsýnna stjórnvalda, alltof oft þröngvað sínu fram.  Þess vegna er aldrei mikilvægara en nú að þeir sem fara vilja að með gát og víðsýn ljái baráttunni rödd sína, penna eða hvað annað sem styrkir baráttuna. Og eins og flestir vita, þá er nóg af baráttumálum til að sinna á næstunni. Nöfn eins og Birta, Þjórsárver og Gjástykki eiga að minna okkur á það er ekki enn hægt að slaka á í þessum málum.

Hvað þarf til viðbótar svo sumir vakni?

Það er alltaf jafnskrítið að hugsa til þess hvað sumt fólk er vanafast þegar kemur að því að styðja stjórnamálaflokk. Þá virðist ekki skipta máli hvað viðkomandi snillingar hafa afrekað, heldur tölta kjósendurnir eins og búfénaður eftir sömu slóðinni á sama básinn. Síðan allt hrundi í haust hefur komið æ betur í ljós hvernig Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að fara um íslenskt samfélag eins og eyðandi eldur með frjálshyggjuna að vopni og eftir stendur þjóð í vanda. Þeir gáfu vinum sínum eignir þjóðarinnar, þeir einkavæddu svo réttir aðilar gætu mokað til sín fé án tillits til þess hvort þjónusta batnaði eða versnaði, þeir tóku úr sambandi eins mikið af eftirliti og varnargirðingum og þeir gátu og þeir tróðu sínu fólki inn á fjölmiðla, í dómstóla og hvar annars staðar sem þeir gátu.  Þeir sýndu svo ekki verður um villst að hægri mönnum er ekki treystandi fyrir fjármálum þjóðar, því þeir eru svo uppteknir að skara eld að eigin köku og vina sinna. Slagorðin sem þeir notuðu í síðustu kostningabaráttu um að traust fjármálastjórn sé stærsta velferðarmálið ættu því með réttu að vera að hitta þá sjálfa fyrir nú með miklum þunga og kjósendur ættu almennt að hafa snúið baki við þeirri sýn sem flokkurinn hefur haldið að fólki síðustu árin. En nei - ekki mikið af svoleiðis er í gangi. Þó einhverjir hafi ákveðið að fólki sem hefur hagað sér svona sé ekki treystandi, þá ætlar þriðjungur þjóðarinnar að veita Sjálfstæðisflokknum brautargengi í vor, ef marka má skoðanakannanir. Það virðist ekki skipta neinu máli þó afrek þessa liðs sé með þvílíkum ósköpum að þjóðin er á barmi gjaldþrots. Hvers vegna er þetta svona? Hvað hefur þetta lið sér til ágætis sem réttlætir að það geti sett heila þjóð á hausinn og samt notið áframhaldandi stuðnings? Væri ekki rétt að staldra við, rífa sig upp úr doðanum og leyfa þeim að finna að svona haga ábyrgir stjórnmálaflokkar sér ekki? Því þjóðin á betra skilið.  Er ekki mál til komið að gömlu fylgismenn flokksins fari að setja hlutina í samhengi í stað þess að halda áframi að fljóta sofandi að feigðarósi?

« Fyrri síða

Um bloggið

Friðrik Dagur Arnarson

Höfundur

Friðrik Dagur Arnarson
Friðrik Dagur Arnarson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 269

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband