7.6.2009 | 11:37
Hafa menn ekkert lært?
Það er með hreinum ólíkindum að lesa svona frétt. Það er ekki að sjá að þeir sem þarna sitja og ræða saman hafi nokkuð lært af þeirri stöðu sem við eru nú í. Það voru nákvæmlega svona aðgerðir sem settu efnahagskerfið úr skorðum. Stórvirkjanir hér og álver þar, aðgerðir sem valda skammvinnum bóluáhrifum en skilja síðan takmarkað eftir. Það sýna ýmsar úttektir sem gerðar hafa verið til að meta efnahagslegan ávinning af stóriðjustefnunni. Það er sem sagt enn verið að ráfa um í vímu þess að stórlausnirnar geti leyst allan vandann. "Big is beautiful" - glepur mönnum enn sýn og menn virðast horfa framhjá því að það eina stóra sem við fengum út úr þessari lífsskoðun voru stórar skuldir og stór vandamál. Halda menn virkilega að þjóðin muni halda á sér hita til lengdar með því að pissa í skóinn sinn með virkjanabrölti og álverum? Halda menn að skammsýn nýting náttúruauðlinda sé það sem tryggi farsæld fyrir börnin okkar? Það er geðsleg framtíð sem þeir sem svona hugsa ætla komandi kynslóðum, ósjálfbær nýting auðlinda, óafturkræft inngrip í náttúruna og spilling annarra möguleika en þeirra sem stóðiðjuofstækismennirnir berjast fyrir.
Ég fæ mig ekki til að trúa því að núverandi stjórnvöld ljái máls á svona áherslum í uppbyggingu framtíðaratvinnuvega þjóðarinnar. Samfylkingin hefur að vísu sýnt að innan hennar eru sterk öfl sem liggja kolflöt fyrir svona málflutningi og þrengdu illilega að umhverfissinnum í flokknum á tímum stjórnarsamstarfsins með íhaldinu. Og ég þakka mínu sæla fyrir að Sjálfstæðismenn og Framsókn eru ekki í ríkisstjórn núna því það er löngu orðið ljóst að þar trúa menn á stórkarlalegar töfralausnir með tilheyrandi umhverfisofbeldi, enda skapar slíkt oft ágætis skjól til að mylja undir vel valda vini og mögulega styrktaraðila. En ég geri skýra og ófrávíkjanlega kröfu til Vinstri grænna um að þeir stígi fram og taki af allan vafa um að álver og óheft náttúruspjöll séu ekki á dagskrá.
Það sem ég segi hér að framan kallar sjálfsagt á gamla sönginn um "hvað þá" og "bentu á eitthvað annað". Það er söngur þeirra sem fá ráð kunna. Það er nærtækt að nefna leiðina. Samfélag okkar er fullt af hugmyndaríku fólki með snjallar tillögur um verkefni, fyrirtæki, störf - en vantar oft betri bakhjarla og aðgang að þolinmóðu áhættufjármangi. Menntun, græn atvinnustefna, alvöru stuðningur við nýsköpun, mannaflsfrek viðhaldsverkefni, uppbygging grunngerðar (og þar með vegabætur), áhersla á rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja, efling heilsutengdrar ferðaþjónustu, efling innlends landbúnaðar, að standa vörð um hina sérstöku og óvenjulegu íslensku náttúru - þetta er bara meðal örfárra atriða sem bæði koma hjólum atvinnulífsins í gang og vinnur að framtíðaruppbyggingu atvinnulífs og samfélags. Um þetta þyrftu umræðurnar að snúast. Auðvitað þarf kjark til að snúa baki við þungaviktaraðilum sem hafa haft hengingartak á samfélaginu og dýrka tröllagang í atvinnulífinu. Og það krefur menn líka um breytta lífssýn og víðari pólitíska hugsun. Þjóðin er búin að átta sig á þessu og það er mál til komið að forystumenn í atvinnulífi, verkalýðshreyfingu og stjórnmálum vakni til vitundar um það að það er aldrei hægt að nota sömu ráð til að leysa vanda og menn notuðu til að koma sér í vandræðin. Ef þeir vakna ekki sjálfir fljótlega er að verða nokkuð ljóst að þjóðin mun vekja þá af blundinum - og það ekki blíðlega.
Stór verk í einkaframkvæmd? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Friðrik Dagur Arnarson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Afhverju tala menn um að koma af stað litlum fyrirtækjum sem einhverja lausn ?? Staðreyndin að það eru litlu fyrirtækinn sem urðu stopp fyrst Og talandi um bakhjarla ertu að tala um Ríkið ?? Þú segist vera á móti álveri það er þinn Réttur en það er ekki þinn Réttur að hafna öllum framkvæmdum Það er bara meira en lítið í húfi yfir 20.000 þúsund manns eru atvinnulausir og fjölgar bara það eru engin 20.000 þúsund störf í ferðamannaþjóustu .
Jón Rúnar Ipsen, 7.6.2009 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.