15.6.2009 | 23:09
Nei, ég er hættur við.
Ég lenti í þeirri lítið skemmtilegu upplifun að togna frekar illa á mjöðm og fara inn á Bráðamóttökuna í Fossvogi til að láta kíkja á þetta. Þar sem ég átti erfitt með að sitja fékk ég að liggja inni í skoðunarherbergi þar til læknir var á lausu að líta á mig. Meðan ég lá þarna og beið, barst ómur af samtölum og annríki inn til mín. Allt í einu heyrði ég í litlum dreng frammi og hann var ansi órólegur, litla greyið. Foreldrar hans voru að reyna að fá hann til að gera eitthvað, sem ég hlustaði ekkert eftir hvað var, en hann var ekki alveg til í. Og þá kom þessi frábæra athugasemd frá honum. "Nei pabbi, ég er hættur við". Fyrst hafði ég gaman af þessu en svo rann upp fyrir mér hvað mikil lífsspeki fólst í þessari athugasemd. Mikið fannst mér þetta dásamleg, einföld og tær afstaða. Ég er hættur við. Auðvitað er ekki hægt að hætta við allt, þó það sé óþægilegt eða fyrirkvíðanlegt. Stundum er engin undankomuleið. En mér fannst allt í einu að það gæti bara ansi gáfulegt að fylgja heilbrigðri hugsun þessa drengs - bara að hætta stundum við það sem er í gangi. Best gæti ég trúað að við myndum bæta líf okkar umtalsvert ef okkur hlotnaðist sú gáfa að muna að það er oft hægt að hætta við og samt að standa að málum með fullum sóma.Og þá myndum við stundum vera bjartsýnni og glaðari innan um þá sem skipta okkur meira máli en aðra.
Hvað með það ef við myndum t.d. hætta við að hlusta á endalausar neikvæðar fréttir af fjármálum, í fjölmiðlum sem eru svo háðir fjármálaöflunum að þeir gera sjaldnast nokkra heiðarlega tilraun til að þjarma að skúrkunum. Leita aftur og aftur til sömu innherjanna sem segja sömu tugguna margþvældu einu sinni enn og okkur er ætlað að trúa. Kannski ættum við bara að hætta að fylgjast með fjölmiðlum sem eru í eigu og/eða umsjá flokksfulltrúa sem passa upp á sitt fólk, en ekki umræðuna og réttlætið. Eigum við ekki líka að hætta að tala úti í horni um hlutina en fara frekar út á meðal manna og taka virkan þátt - jafnvel þó það kosti að við getum blotnað. Kannski vil ég bara hætta við þátttöku í umræðu sem segir að ég eigi að vera flokkaður samsekur og meðvirkur og bera sömu ábyrgð og þeir sem stjórnuðu ferðinni í Hrunadansinum. Eigum við ekki bara að finna eitthvað á hverjum degi sem gott er að hætta við og gera líf okkar þannig bjartara fyrir fjölskyldu, vini og okkur sjálf.
Um bloggið
Friðrik Dagur Arnarson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.